Töfrahurðin er tímavél sem gefur ungu fólki kost á að kynnast klassísku meisturunum í gegnum tóna og töfra.

Tónleikar

Töfrahurð býður ungu fólki upp á tónleika þar sem tónlist er blandað saman við fræðslu og skemmtun og þannig skapað andrúmsloft sem höfðar til ungs fólks. Tónlistin sem flutt er kemur að mestu frá klassískum tónskáldum, bæði fyrri tíma og samtíma. Heimur klassískrar tónlistar er kynntur börnunum á léttan hátt með hjálp leikara sem leiða tónleikana áfram. Markmiðið er að börnin læri að þekkja og njóta klassískrar tónlistar á eigin forsendum, með leik, tali, fræðslu, tónlist og svo virkri þáttöku. Slíkt brýtur niður múra sem oft virðast myndast um klassíska tónlist. Hverjir tónleikar eru byggðir í kring um þema sem einkennir tónlistina. Stjórnandinn/leikari leiðir framvinduna, talar við börnin og fær þau upp á svið til þátttöku.

Hurð, „töfrahurð” er á sviðinu sem virkar sem tímavél, til dæmis þannig að börnin breytast í fræg tónskáld þegar þau ganga um hana (Mozart, Beethoven, Verdi…). Þegar börnin haf breyst í tónskáld leika þau hlutverk eða verða sögupersónur og fara í margs konar hlutverk, stjórna jafnvel tónlistinni.

Töfrahurð Tónleikar fóru fram í Salnum frá 2009 en hafa frá 2011 verið í Tónlistarsafni Íslands, Hofi og Hörpu.  Frá upphafi hafa verið haldnir yfir 90 tónleikar fyrir börn og unglinga.

Töfrahorn

Í september 2011 fékk Töfrahurð aðstöðu í Tónlistarsafni Íslands sem kallast „Töfrahorn“. Þar er leik- og grunnskólabörnum boðin ókeypis dagskrá um klassíska tónlist. Töfrahorn er viðbót við fjölskyldutónleikana þar sem boðið er upp á minni viðburði yfir árið, stuttar kynningar á tónskáldum stutta tónleika og kynningar. Töfrahornið er „tímavél“ líkt og Töfrahurðin í Salnum, þar sem fræg tónskáld sögunnar birtast ásamt söngvurum og dönsurum, til að hitta hina ungu gesti. Þar segja tónskáldin sögur af því hvernig lífið gekk fyrir sig þegar þeir voru á dögum, segja frá sínum heimaborgum og kynna tónlist sína með tóndæmum, dönsum og skemmtilegum sögum. Inn í þetta tengir Tónlistarsafn Íslands sögulegan fróðleik um tónlist og dans. Einnig eru til sýnis hljóðfæri sem smíðuð hafa verið á námskeiði Töfrahurðar í hljóðfærasmíði þar sem ýmis hljóðfæri eru smíðuð úr endurvinnanlegu efni.  

Aðsókn í Töfrahorn hefur verið mikil og vaxandi og hafa þegar yfir 6500 börn notið þessarar ókeypis dagskrár. Mikil ánægja er einnig með þetta samstarf innan Tónlistarsafns Íslands. Verkefnið hefur vakið eftirtekt annarra menningarstofnana bæjarins á Borgarholtinu sem í vaxandi mæli taka nú þátt í þessari dagskrá fyrir börnin.

Svipmyndir úr töfrahorni:

Verdi og ítalska óperan

Mozart heimsækir Töfrahorn

J. Strauss

Carmen